Á laugardaginn 5.maí rákum við stóðið heim. Stóðhryssurnar voru teknar frá og voru ekki lengi á leiðinni í hólfið sitt, vissu sko alveg hvað til stóð. Enda ekki seinna vænna að taka þær frá því við eigum von á tveimur folöldum núna í maí.
Reiðhestarnir sem enn höfðu verið í fríi voru teknir heim þannig að núna telst mér til að það séu um 17 hestar tilbúnir til notkunar hér á bæ. Ungdómurinn fór svo á norðurpartinn undir forystu Þyrils (einhver verður að hafa vit fyrir þessu liðið). Í þeim hópi eru margar álitlegar hryssur sem við bindum miklar vonir við s.s Elding og Þruma Forsetadætur, Snerpa, Dimma og Katla Fróðadætur (Orrasonur) Röst Lúðvíksdóttir og svo lillurnar okkar undan Straumi þær, Spurning, Iða og Aksja. Það verður gaman að sjá hvernig þessar dömur líta út þegar þær koma heim í haust.
Helmingur og Straumur bíða eftir því að komast í sín hólf og taka á móti hryssum, en það verður í júni. Straumssonurinn okkar hann Hylur verður hér heima í hólfi með nokkrum tveggja vetra tittum.
Eins og gengur og gerist þarf að grisja stóðið og var það gert núna. Ein gömul stóðhryssa, tveir reiðhestar og einn ungfoli kvöddu okkur og þökkum við þeim fyrir samfylgdina.