Nú er komið að smá umfjöllun um hana Öskju frá Kílhrauni. Hún er fædd árið 2006 og er undan Straum frá Sauðárkróki og Hörpu frá Kílhrauni.
Þessi hryssa hefur verið í miklu uppáhaldi hjá heimilisfólkinu alla hennar tíð. Þegar hún var tekin inn 3v og byrjað að gera hana bandvana sá maður strax að þarna væri spennandi efni. Hún fór um á svifmiklu brokki og það virtist sem svo að hún snerti varla jörðina á tímabili. Þessi hryssa hefur alveg einstakt geðslag, mikinn vinnuvilja og leggur sig alltaf fram.
Hún var gerð reiðfær veturinn sem hún varð 4v. Ég var með hana í Víðidalnum og var hún alveg ótrúlega örugg í því umhverfi, alltaf mikil áframhugsun og samvinnuþýð. Hún veiktist mjög illa í hóstapestinni vorið 2010 og því var ekki hægt að þjálfa hana lengur en fram í miðjan apríl. Veturinn eftir fór hún síðan til Sigga Sig þar sem ætlunin var að sjá hvað hún myndi gera og hvort hægt væri að sýna hana. Það var úr að hún var sýnd og fór í ágætis dóm 7,84 út sem við vorum bara nokkuð sátt við. Hæst fór hún í 9,0 fyrir bak og lend, einnig fékk hún 8,5 fyrir frampart og höfuð. Fyrir byggingu fékk hún 8,05 og fyrir hæfileika fékk hún 7,70 þar sem hún var nokkuð jöfn á línuna. 8,0 fyrir tölt, brokk, stökk, vilja og svo 6,5 fyrir skeið. Vissum að hún ætti nú töluvert inni þannig að það var ákveðið að hafa hana í þjálfun næsta vetur líka.
Núna í vetur hefur hún verið í þjálfun hjá Manna í Langholtskoti og gengur vel. Hún er búin að styrkjast á öllum gangi og þá sérstaklega skeiði þannig að nú er bara að krossa putta og vona að allt smelli á sýningu í vor 😉
Flott eintak 🙂