Á vorin þegar stráin byrja að stingast upp úr Flóðunum í Kílhrauni fara hrossin af stað að gæða sér á nýgræðingnum.
Það er svolítið fyndið að fylgjast með hestunum á kafi í vatninu eins og sjá má á myndunum. En þeim er alveg sama þó þeir þurfi að kafa svolítið ofanaí vatnið eftir sælgætinu. Við í Kílhrauni köllum þá flóðhesta á meðan á þessu stendur.
Gömul þjóðtrú segir okkur reyndar af öðru fyrirbæri sem nefnist Nykur. Samkvæmt íslenskri orðabók er nykur: "dularfull hestskepna með öfuga hófa sem á að lifa í vötnum og hlaupa með menn í þau". Sem betur fer snúa hófarnir á hestunum okkar allir rétt og svo þekkjum við þá alla í sjón en betra er að hafa varann á ef ókunnugur grár hestur skýtur upp kollinum. Þórarinn Eldjárn orti um nykurinn sem gengur líka undir nafninu nennir, í ljóðinu "Kvæði um Rósu og Nikulás Þórð eða Gáið á hófana systur. Kvæðið birtist í bókinni ….erindi sem kom út árið 1979.
Senn fer að líða að fjölgun í stóðinu en fyrsta folaldið er væntanlegt nú í maí.
Hæ hó.
Í dag voru ekki bara flóðhestar heldur flóðhundar þar sem hundarnir úr bænum voru ansi áhugasamir um sull og fulgalíf tjarnanna….þeir sulluðu á meðan við mennirnir púluðum í víradrasli 🙂
Kveðjur,
Lilja Ö.