Stóðið rekið á vetrarbeit
Þegar húmar að hausti eru hrossin í Kílhrauni sett saman á vetrarbeit. Folöldin læra siði hinna fullorðnu, tryppin uppgötva goggunarröðina og hver hestur fer á sinn stað í stóðinu.
Eftir að smalað hafði verið úr öllum beitarhólfum sumarsins var stóðinu safnað saman í gerðinu. Það var síðan skoðað gaumgæfilega, folöldin metin hátt og lágt og hófar klipptir þar sem það þurfti. Fullorðnu geldingarnir heilsuðu folaldshryssunum með virktum og spjölluðu aðeins við ný og ókunnug hross.
Eftir að allir hestarnir höfðu fengið ormalyf voru þeir sendir á vetrarstykkið. Eins og sjá má á myndbandinu þekkja hrossin umstangið.