Útigangurinn er ánægður með okkur mannfólkið þegar rúllan er komin og búið að klæða hana úr plastinu. Þá er snoppunni stungið á kaf og varla litið upp fyrstu mínúturnar.
Það er mjög heppilegt að nota tímann til þess að skoða hópinn og kanna ástand hans. Hér í Kílhrauni eru hrossin í góðu standi. Hafa nægt rými til að hreyfa sig, ágætt hey og geta kroppað víða inn á milli.
Fótur er höfðingi útigangsins. Hann er þó farinn að reskjast, kominn á 28. aldursár. Hans hlutverk er að kenna ungviðinu tilhlýðilega virðingu fyrir eldri hrossum og sjá til þess að þau læri rétta siði. Folöldin eru undir hans verndarvæng þar til þau komast á 2. til 3. ár. Þá fá þau að sjá um sig sjálf og finna sinn stað í stóðinu.
Fótur þarf ekki lengur að hafa fyrir því að halda stöðu sinni innan útigangsins. Aðrir hafa tekið yfir hlutverk hans að mestu leyti. Þar koma þeir sterkir inn Vindur og Glampi, en eru fjarri því að ná sömu virðingu og Fótur. Sá gamli fær nú náðugri daga með folaldshryssunum og yngstu árgöngunum.
Fífa Furstadóttir er ein þeirra sem nemur hegðunarfræðin af þeim gamla. Hún er á 2. vetri og hefur greinilega lært að meta rúlluna, eins og sjá má á myndinni. Hún er leirljós eins og mamma sín, en hefur erft útlitseinkenni föður síns.
Það er alltaf skemmtilegt að fylgjast með ungviðinu vaxa og dafna. Smátt og smátt kemur í ljós hvaða karakter býr í hestinum. Þá koma fram vísbendingar um framtíðarhlutverk hestsins.