Það hefur verið frekar rólegt yfir hestunum okkar í Kílhrauni. Pestin hefur ekki látið okkur í friði frekar en aðra.
Það er nokkuð misjafnt hversu veikir hestarnir eru en þeir sem hafa verið frá hvað lengst, eru nú vonandi að jafna sig. Útigangurinn hefur ekki sloppið en pestin hefur ekki lagst eins þungt á þau.
Nú þegar búið er að fresta Landsmóti hestamanna fer tíminn í að láta hestana ná sér. Vonandi verður nú blásið til einhverra kynbótasýninga og íþróttakeppna þegar líður á sumarið. Við munum taka þátt ef heilsan leyfir.
Þrátt fyrir þetta er nú alltaf eitthvað stúss í gangi. Alltaf má snurfusa og laga til í hesthúsinu. Tryppin fá sína þjálfun og beðið er eftir fyrsta folaldinu. Tittirnir okkar mega bráðum fara saman við stóðið þar sem kúlurnar þeirra voru fjarlægðar um daginn.
Búið er að bera á og fljótlega verður hleypt vatni á beitarhólfin. Þá fara nú vorverkin að klárast.