Það er sko ekki verið að standa sig með þessa síðu, miðað við að það er fullt af frétta 🙂
Sumarið verður nú í stuttu máli gert upp ásamt nýjum fréttum og vonandi verður hægt að halda þessari síðu á lífi þannig að einhver nenni að fylgjast með okkur 🙂
Eins og áður hafði komið fram hér þá unnum við Þokki okkur rétt á að keppa á landsmótinu, þetta var búinn að vera erfiðir mánuðir í þjálfun fyrir úrtöku vegna þess að klárinn slasaðist í enda apríl og ekki var hægt að ríða honum fyrr en í enda maí þannig að við vorum rétt búin að trimma í 2 vikur fyrir úrtöku en hún gekk sæmilega og inn komust við – það er alltaf ákveðinn sigur! Þar sem ég var fyrir norðan á Hólum þá var Þokki þar með mér en bara á öðrum stað og því gekk ekki eins vel og skildi að þjálfa fyrir LM, gátum ekki þjálfað og undirbúið okkur eins vel og ég hefði viljað og því gekk landsmótið sjálft langt frá því sem við ætluðum okkur en þetta er nú okkar fyrsta mót að keppa við “stóru kallana” þannig að þetta var bara ágætis reynsla 🙂
Eftir LM tók við keppnisfrí hjá okkur Þokka enda fá mót framundan og ég ákvað að taka því rólega með hann þar sem mér fannst hann ekki vera búinn að ná sér að fullu og því var mikið álag ekki gott fyrir fætinn á honum. Tryppin voru tamin á meðan og gekk vel með flest hver, Dimma ákvað að blómstra bara og er orðið mikið uppáhaldshross sem leynir töluvert á sér og ég er ekki frá því að hún eigi eftir að verða nokkuð góð! Askja var líka í léttu trimmi, rosalega gaman að fá hana heim en hún fór síðan í sitt haustfrí um miðjan ágúst. Katla tók ágætis framförum þegar leið á en hún fór líka í haustfrí í enda ágúst og vonandi að hún fari að smella næsta vetur enda með fullt af hæfileikum 🙂
Liltu tryppin (eins, tveggja og þriggja vetra) voru tekin inn í smá tíma yfir sumarið (þau minnstu bara í 1-2 vikur) og gerð bandvön og lærðu hinar ýmsu ábendingar sem er góður grunnur fyrir framhaldið. Þriggja vetra folunum var kennt að lónserast bæði með hnakk og beisli og lærðu ýmislegt fleira sem kemur sér að góðum notum þegar kemur að frumtamningunni sjálfri.
Þokki hélt nú áfram í sínu trimmi og var ég mikið með hann hjá Manna í Langholtskoti sem hjálpaði mér alveg helling með hann og þessi vinna sem ég hef lagt í klárinn fór sko aldeilis að skila sér. Suðurlandsmótið var haldið um miðjan ágúst og skráði ég okkur Þokka bæði í tölt og fjórgang. Þetta var svakalega mikil törn en forkeppni í fjórgang var á fimmtudeginum og gekk hún glimrandi vel, 6,47 og efsta sætið í 2.flokk. Töltið var síðan á föstudeginum og að mínu mati gekk það mjög vel en dómararnir ekki alveg sammála og gáfu okkur bara 6,27 í einkunn en það var alveg umtalað á þessu móti hvað dómararnir voru harðir og margir mjög reiðir og einhverjir hættu við að keppa, þannig að ég uni vel við mínar tölur á þessu móti. Svekkjandi samt að við enduðum í 6.sæti í töltinu og þar af leiðandi í efst í B-úrslitin á laugardaginn sem við svo unnum.
Síðan rann upp sunnudagur sem byrjaði með úrslitum í fjórgang. Mikil spenna var í úrslitunum þar sem við Þokki vorum ekki alveg upp á okkar besta þá sérstaklega á brokkinu sem gekk ekki alveg eins og skildi og eftir fyrstu tvö atriðin vorum við í öðru sæti en ég vissi að okkar sterkustu gangtegundir voru eftir og með vel heppnaðri sýningu á feti, stökki og greiðu tölti (sem hann fær rúmlega 7 fyrir) náðum við að næla okkur í Suðurlandsmeistara titil í fjórgang 🙂 Ótrúlega mikil hamingja enda mót sem mig hefur langað að vinna og var það markmiðið enda tapaði ég með 0,03 kommum í fyrra en núna tókst okkur að vinna með 0,03 kommum 🙂 Sætur sigur!
Eftir fjórgangsúrslitin var síðan töltið og ég tók þá bara upp á gamanið og æfinguna, fann fyrir greinilegri þreytu í klárnum og því tókum við bara létt á því og enduðum í 6. sæti með ágætis einkunn. Við urðum einnig Suðurlandsmeistarar í samanlögðum fjórgangsgreinum sem var afskaplega gaman 🙂
Helgina eftir suðurlandsmót var síðan Gæðingamót Smára. Við Þokki fengum 8,39 í forkeppni í B-flokk og efsta sætið en rétt töpuðum svo fyrir Manna og Breytingu með 0,01 kommu – pínu svekkjandi en ég segi að ég eigi nú nokkur hár í Breytingu þannig að það var bara gaman að hún skildi þá vinna 🙂
MEst gaman var hvað Þokki er að hækka sig fyrir hægt tölt enda hefur það verið okkar helsta vandamál, en á Suðurlandsmótinu fékk hann tvær 7ur fyrir hægt tölt og á gæðingamótinu fékk hann frá 8,4-8,6 🙂 En fyrir greitt tölt fékk hann upp í 8,8 enda algjörlega hans aðall, með alveg hreint svakalegt greitt tölt, gríðarlega ferðmikið og öruggt. Við enduðum s.s önnur með 8,45
Tókum líka þátt í opinni töltkeppni og fengum 6,63 í forkeppni og síðan 3 sæti í úrslitum með 6,67 í einkunn.
Eftir þessi mót fór Þokkinn í kærkomið haustfrí þar sem hann fær að hvíla lúin bein og mætir síðan ferskur norður á Hóla í janúar þar sem hann verður nemandahestur hjá mér í náminu 🙂 Ótrúlega spennandi að sjá hvernig sú þjálfun leggst í hann og hvort við náum að bæta það sem þarf að bæta og laga.
Dimma er núna hjá mér fyrir norðan og tekur miklum framförum, ofboðslega skemmtileg hryssa sem ég bind þónokkrar væntingar við, stigvaxandi vilji og ákveðin áfram, með góðar og hreinar gangtegundir og verður vonandi flugvökur 😉 Loksins sem tekst að þjálfa hana almenninlega eftir veikindi og slys og annað sem er búið að henda hana. Þarf að drífa í því að taka myndir af henni.
Svo fara hrossin að týnast fljótlega inn í áframhaldandi tamningu og þjálfun. Dimma fer síðan til Manna þegar ég fer í jólafri þar sem ég get ekki haft aukahross með mér á Hólum eftir áramót. Askja kemur síðan til mín í desember í smá trimm áður en hún fer til Manna gæti verið að Katla myndi gera það líka enda gaman að þjálfa aðeins þessar hryssur.
Lilja skellti sér á tamninganámskeið á Hvanneyri og gengur það ljómandi vel og helling búin að læra þannig að það verður fjör hjá okkur í hesthúsinu næsta sumar og spá og spekúlera í öllu því sem við erum búnar að læra yfir veturinn – spennandi.
Öll folöldin braggast vel og eru þau afsakplega forvitin og gaman að umgangast þau.
Allar hryssurnar eru fengnar nema hún Harpa sem fékk ekki fyl en hún var hjá Sólbjarti frá Flekkudal sem átti að vera mitt fyrsta folald en það verður bara að bíða, vonandi heldur hún næsta sumar en það er alveg óráðið undir hvaða fola hún fer.
Lýsa er fylfull eftir Svein-Hervar frá Þúfu, Spá frá Skíðbakka fylfull eftir Kjarna frá Þjóðólfshaga og er ég mjög spennt fyrir því afkvæmi enda spá mikil uppáhaldshryssa, algjör snillingur. Sletta frá Dalbæ fylfull eftir Stíganda frá Stóra-Hofi og einnig hún Gróska frá Dalbæ en það er folald sem Siggi á 🙂 Giftu var ekki haldið í sumar en hún átti í sumar hann Greifa sem er undan Hrana frá Hruna (undan Krák f. Blestast. og 1. verðlauna hryssu) og er það alveg ofsalega skemmtilegur foli, svo forvitinn og óhræddur.
Verður gaman að temja þessi folöld þegar að því kemur 🙂
Jæja ætla að segja þetta gott í bili enda orðið ansi langur pistill 🙂
Bestu kveðjur, Hólmfríður.