Dimma frá Kílhrauni

Ákvað að skella inn hérna einni óskýrri mynd af henni Dimmu frá Kílhrauni – það er búið að dásama þessa hryssu svo að mér fannst kominn tími á eina mynd 😉

Dimma er fædd árið 2005 en vegna ýmissa hrakfalla var hún aðeins gerð reiðfær sumarið 2009 og varla verið þjálfuð síðan (hestapest og meiðsli á fæti töfðu frekari þjálfun). Hún var síðan tekin inn í júlí 2011 og byrjað á henni aftur. Hún er afskaplega meðfærileg, ganghrein og skemmtileg hryssa. Þjál og vakandi.

Hún hefur fengið gælunafnið „Svarti Svanurinn“ þar sem hún heillaði okkur aldrei neitt svakalega, átti bara að vera meðalgóð reiðhryssa en svo þegar á leið á þjálfunina hefur hún blómstrað og það verður vonandi hægt að mæta með hana á kynbótabrautina í vor 🙂

Dimma býr yfir góðu tölti og ágætis brokki sem styrkist vonandi þegar á líður og svo á hún að vera fljúgandi vökur – ber sig fallega með miklum fótaburði – aldeilis spennandi efni hér á ferð, þrátt fyrir að vera orðin 7v gömul 🙂

 

Dimma frá Kílhrauni

Þarna er hann Manni í Langholtskoti á baki en hann hefur séð um þjálfunina á Dimmu síðan í janúar og erum við afskaplega ánægð með hans vinnu. Ég get ekki neitað því að ég hlakka ógurlega til að klára skólann í vor og komast í vinnuna enda bíða mín þrjár afskaplega spennandi hryssur – ætla að reyna a skella inn myndum og smá fréttum af þeim hverri og einni.

 

Bestu kveðjur, Hólmfríður