Höfðingi er fallinn

Fótur að smakka rúlluna til.

Hinn aldni höfðingi, Fótur frá Enni er fallinn frá á 30. aldursári.

Þessi einstaklega magnaði hestur var í miklu uppáhaldi hjá okkur, því öll hestaævintýrin hófust með kynnum þeirra Lilju.

Það var sumarið 2002 að við fórum loks í langþráða hestaferð með Báru Sævaldsdóttur, vinkonu okkar. Ferðinni var heitið norður í land þar sem lagt var upp frá Grýtubakka og á þriðja degi ferðarinnar var riðið norður í Fjörður. Þar féllu þau endanlega hugi saman, Lilja og Fótur.

Fótur og Bergur Tjörvi hittast í fyrsta sinn.

Fótur kom í hlut Lilju þegar raðað var á hestana í upphafi hestaferðarinnar og voru þau par alla ferðina. Það var ekki liðið langt á ferðina þegar Fótur komst að því að í vasa Lilju leyndist gómsætur fjársjóður. Perubrjóstsykur frá Nóa var í poka sem skrjáfaði skemmtilega í og var Fótur fljótur að komast á bragðið. Upp frá því voru þau óaðskiljanleg. Fótur gekk á eftir Lilju hvar sem hún fór af baki og snuddaði í kringum vasana á úlpunni hennar. Hann var semsé búinn að finna það út hvar sælgætið var að finna. Lilja var aldeilis ónísk á molann og laumaði oft einum og einum að honum.

Að lokinni þessari hestaferð fór Lilja í hestakaup og hefur Fótur verið í hennar eigu upp frá því. 

Öllum þykir vænt um Fót.

Þar með hófst hestaferðalag okkar í Kílhrauni. Sú saga er orðin allöng og verður ekki rakin frekar hér.

Það kom fljótt í ljós að það leynist eitthvað annað og meira í Fæti þegar hann kom í Kílhraun. Honum leið greinilega mjög vel hjá okkur því hann varð strax mjög viljugur reiðhestur og jafnfram ákveðinn. Hann tók strax völdin í stóðinu og enginn komst upp með neitt múður þegar Fótur var annars vegar. Ungviðið var honum sérstaklega kært og horfðum við oft upp á það þegar hann var að verja folöldin fyrir ágangi annarra hesta.

Fótur setti þeim öllum lífsreglurnar og leyfði þeim að éta úr rúllunni sér við hlið, allt þar til þau komust á þriðja vetur. Þá urðu þau að finna sér sinn stað í goggunarröðinni sjálf. En tamningar í Kílhrauni voru auðveldari þegar Fótur var búinn að leggja trippunum lífsreglurnar.

Árin liðu og hlutverk Fóts varð að lokum það að halda friðinn í stóðinu. Hann sinnti því af kostgæfni alveg fram á síðasta dag.

Það var svo nú um miðjan mars 2019 að tími Fóts var kominn. Aldurinn sem engu eyrir sagði til sín og var hann því felldur, saddur lífdaga í Kílhrauni þar sem honum hafði liðið best.

Fótur veturinn 2019.

Síðasta spölinn gengu þau saman Lilja og Fótur. Hann var snuddandi í vasa hennar eftir góðgæti sem hún var auðvitað með og laumaði að honum molum eftir því sem hann vildi. 

Minningin um Fót lifir í fjölskyldunni, enda allir í fjölskyldunni búin að fara á bak Fæti og fá að njóta þeirrar ánægju að sitja höfðingja.