Síðasta laugardag, 20. mars var vorjafndægur.
Þann dag sá ég álftaparið á Ærhúsaflóði þar sem þau syntu um í rólegheitum, leituðu ætist og lituðust um. Ég forvitnaðist um það hér á vefnum hvenær álftin kom í fyrra og viti menn. Skrifaði ég ekki færslu á vorjafndægri þess efnis að álftin væri komin. Það verður spennandi að sjá hvort það sama verði uppi á teningnum næsta ár. Það er nægur tími til að bíða eftir því.
Vonandi veldur eldgosið á Fimmvörðuhálsi engum búsifjum hér í Kílhrauni. Við fylgjumst vandlega með fréttum af því og ef vart verður öskufalls þá tökum við væntanlega stóðið inn til þess að koma í veg fyrir tjón.