Fréttir af hestum og mönnum.

Það markverðasta sem gerst hefur frá síðustu færslu er að nú eru þrjár merar í tamningu og þjálfun hjá Manna í Langholtskoti en það eru þær Askja, Katla og Dimma. Hólmfríður var með merarnar í bænum um hátíðirnar og tók þær Öskju og Kötlu í smá trimm milli snjóhríða en Dimma var í fanta formi eftir Hóla dvöl sína. Dimma er búin að breytast mikið bæði í byggingu og svo skaðar nú ekki að hún er bara orðin nokkuð sæt eins og systir sín Askja. Hæfileikarnir eru að koma betur og betur í ljós og eru þau Hólmfríður og Manni mjög ánægð með hana. Heyrst hefur að Hólmfríður ætli eitthvað að prufa keppnisvöllnn með henni í suma 🙂

Katla og Siggi Sig 2009Katla er líka öll að koma til enda alveg kominn tími á það. Hún er greinilega frekar seinþroska ræfillinn enda stór og mikill karakter sem hefur sína skoðun á málunum. Vonandi verður hægt að fara með hana í dóm í sumar en hún var ekki tilbúin í það í fyrra. Myndin sem fylgir er af Kötlu hjá Sigga Sig en hann frumtamdi hana fjagra vetra og svona leit hún út þegar við tókum við henni árið 2009.

Askja dúllan er að standa sig vel, vinnur vel og vill allt fyrir knapann gera svo framarlega sem hún skilji hvað beðið er um. Hún á það víst til að stoppa og spyrja á sinn hátt „hvað meinar þú“ og fær þá skýrari bendingu og gerir þá það sem beðið er um 🙂 Það er víst búið að dásama þessa meri nóg og en gaman verður að sjá hana í brautinni í sumar þar sem hún ætlar að sýna hinum hvað hún er góð 🙂

Þokki töffari er hjá Hólmfríði á Hólum og gengur vel. Eitthvað fannst honum þessi inni vinna leiðigjörn á tímabili en fékk þá að fara í frjálsari æfingar og meira út með knapanum sínum. Hann er kominn í fanta form og verður gaman að sjá hvernig gengur að vinna í hæga töltinu hans en það hefur verið honum erfiðast hingað til.

Hólmfríður og Dynjandi í Smala

Hólmfríður kemur svo í sveitina til að keppa sem varamaður Manna í Uppsveitardeildinni. Hún og Dynjandi fara í smalann og verður ágætt að fara á fystu keppnina með knapa til að aðstoða því restin af keppninni verðum við „bara“ áhorfendur.

Hin hrossin eru í góðu yfirlæti út á túni og fá sínar rúllur reglulega. Þau láta nú alveg vita ef þeim finnst eigendur eitthvað seinir með gjafirnar og hafa að minsta kosti tvisvar farið úr girðingunni og afgreitt sig sjálf í rúllunum, okkur til lítilla skemmtunar. Folöldin eru öll að spekjast með Greifa hennar Giftu (Kollu og Jóns í Réttarholti) í fararbroddi sem kemur eins og hvaða hvolpur sem er og fær sitt kjass og klór þegar við komum út á tún.

Af öðru fólki er það að frétta að Lilja er komin í stjórn hestamannafélagsins Smára og verður ritari félagsins. Nú er eins gott fyrir hana að hætta að tuða á hliðarlínunni og láta verkin tala. Annars er bara verið að bíða eftir að tíminn líði, frostið og rigningin minnki og vorið komi í öllu sínu veldi 🙂