Fursti frá Kílhrauni

Fursti frá Kílhrauni.

Á Landsmóti hestamanna á Hellu árið 2008 vakti rauður hestur í kynbótabrautinni athygli okkar. Hesturinn var fasmikill og geislaði frá sér þokka. Það stirndi á hann í sólskininu þegar hann sýndi kosti sína á yfirlitssýningunni. Þá var merkt við í Landsmótsbókina.

Árið 2010 eignumst við helmingshlut í rauðblesóttri hryssu sem hafði náð ágætum árangri í keppnisbrautinni. Hún var einbeitt á brautinni og fangaði mann á yfirferðartölti með flaksandi fax og tagl.

Þessi tvö Mídas frá Kaldbak (8,34) og Gróska frá Dalbæ (8,19) voru pöruð saman, sumarið 2010, svo úr varð Fursti frá Kílhrauni.

Fursti fæddist í maí árið 2011 í Kílhrauni. Rauður, einlitur, með svart í taglinu neðst eins og faðir hans. Þegar hann fór að þroskast og stækka kom fljótlega í ljós að Fursti bar af jafnöldum sínum í hreyfingum. Hann fékk að njóta þess þegar komið var að ákvörðun um geldingu.

Fursti hefur alltaf haft varann á sér gagnvart fólki og var ekki mikið að gefa sig að því að fyrra bragði sem folald. En það hefur elst af honum og í dag er hann ekki eins feiminn. Hann á nú þegar eitt afkvæmi og væntanleg eru þrjú önnur í sumar.

Efnilegur stóðhestur

Fursti frá Kílhrauni í maí 2015.

Fursti er í tamningu hjá Manna í Langholtskoti og hefur það gengið ágætlega. Fursti er þó mjög kvikur og hefur mikinn sprengikraft. Hann er lærdómsfús en ræður ekki ennþá fullkomlega við hæfileikana, enda rétt orðinn fjögurra vetra. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni hjá þeim félögum í sumar. Þegar allt smellur saman verður Fursti sýndur í kynbótadómi.

 

 

 

Kynbótamat
Bygging blub Hæfileikar blub
Höfuð 105 Tölt 118
Háls/Herðar/Bógar 116 Brokk 116
Bak og lend 100 Skeið 91
Samræmi 111 Stökk 119
Fótagerð 105 Vilji og geðslag 117
Réttleiki 99 Fegurð í reið 123
Hófar 112 Fet 102
Prúðleiki 111 Hægt tölt 113
Sköpulag 118 Hæfileikar 113
Aðaleinkunn 116