Fyrsta folald ársins 2012

Fyrsta folald ársins í Kílhrauni leit dagsins ljós þann 8. maí. Gróska frá Dalbæ kastaði þá folaldi sem verður væntanlega jarpt eða brúnt, með daufa stjörnu fyrir ofan vinstra auga. Ekki er alveg staðfest um hvort kynið er að ræða, en við skjótum á hryssu svona fyrsta kastið. Vorið var ekki upp á sitt blíðasta fyrsta sólarhringinn í lífi þessa folalds. Fyrstu nóttina fór frostið niður í 6°og nú um helgina er spáð norðan áhlaupi. En þetta eru harðgerðar skepnur og folaldið dafnar.

Nú er það staðfest. Hestur kom í heiminn. Þarf að æfa mig í kyngreiningum á folöldum.

 

Gróska og folaldið 2012

Grósku frá Dalbæ eigum við í félagi við Sigga Sig. í Þjóðólfshaga. Þetta folald fellur honum í skaut. Það er undan Stíganda frá Stóra-Hofi.

Næsta folald er væntanlegt um mánaðarmótin næstu og svo er von á öðrum tveimur í júní.

Gróska og Stíganda sonur