Kílhraun í Herning
Fólkið í Kílhrauni, ásamt vinum sínum úr Langholtskoti hleyptu heimdraganum núna í byrjun ágúst og drifu sig á heimsmeistaramót íslenska hestsins í Herning í Danmörku.
Danmörk tók vel á móti gestum sínum og mótshaldarar í Herning eiga heiður skilinn fyrir gott skipulag, frábæra aðstöðu, vinalegt viðmót og snyrtilegt mótssvæði alla dagana.
Okkur leiddist ekki í Danmörku. Mættum í brekkuna alla daga, en áttum samt tíma til að skoða nokkra markverða staði í nágrenninu. Þar skal helst nefna Giveskud dýragarðinn og verslunarmiðstöðina í Herning. Keppnisbrautin var þó aðal aðdráttaraflið og var gaman að fylgjast með mörgum glæsilegum tilþrifum hjá keppendum. Árangur íslenska liðsins var góður þar sem hápunktur mótsins, að okkar mati, var heimsmeistaratitill Kristínar Lárusdóttir í töltkeppninni. Henni tókst að skjóta miklum reynsluboltum ref fyrir rass og sigraði þá verðskuldað.
Mikið var spáð og spekúlerað á pöllunum. Ræða þurfti sýningar og dóma eins og gengur. Á milli atriða var gjarnan gengið niður úr stúkunni og staðan metin. Að lokinni keppni hvern dag var svo slakað á, ýmist í sumarhúsinu þar sem við héldum til, eða á mótssvæðinu sjálfu.
Á laugardagskvöldinu var öllum hópnum boðið í grillmat hjá dönskum vinum Manna og Ragnheiðar. Þar kynntumst við góðu fólki og var „eskimamma“ óþreytandi að stjana í kringum okkur.
Að loknu mótinu hélt svo hver til síns heima, ánægðir og þreyttir.