Folöld í Kílhrauni 2016
Að venju fæðast nokkur folöld í Kílhrauni á hverju ári. Þetta sumar hafa fjögur folöld litið dagsins ljós og auðvitað er hvert þeirra öðru fallegra.
Þann 2. júní kastaði Sunna frá Ögri, jörpum hesti undan Hljómi frá Kílhrauni. Hann fékk nafnið Byr frá Ögri. Þau eru í eigu Bjarna Lárusar Harðarsonar. Þann 12. júní kom svo brúnn hestur undan
Blíðu frá Ljótunnarstöðum og Fursta frá Kílhrauni. Ásdís og Gunný eiga þau.
Það var svo þann 2. júlí að síðustu tvö folöldin komu sama daginn. Spá frá Skíðbakka 1 kastaði jarpri hryssu undan Jarli frá Árbæjarhjáleigu.
Folaldið er í eigu Sigga Sig. Askja frá Kílhrauni kastaði líka jarpri hryssu undan Hrafnari frá Auðsholtshjáleigu. Hún hefur fengið nafnið Frigg frá Kílhrauni. Lilja og Bjarni eru mjög lukkuleg með þetta jarpa folald.
Nú er kominn sá tími að hryssurnar eru farnar hver í sína áttina að hitta nýja stóðhesta. Þeim verður svo safnað saman þegar sumri tekur að halla og þá strax verður farið að hlakka til næsta sumars.